Þarf að taka ákvörðun?
Við tökum u.þ.b. 200 ÁKVARÐANIR á hverjum degi. Flestar þessara ÁKVARÐANNA eru mjög litlar eins og hvar á ég að setjast við matarborðið eða hvaða leið á ég að fara í skólann. Þær tökum við án þess að hugsa með því að setjast alltaf í sama sætið í hádegismat í skólanum, borða alltaf sama morgunmatinn eða með því að klæðast sokkunum merktum mánudegi á mánudegi. En aðrar ÁKVARÐANIR þurfum við aðeins að hugsa meira um.
Það má skipta ÁKVÖRÐUNUM í þrjá flokka:
1. Einfaldar ÁKVARÐANIR sem hægt er að leysa með einföldum spurningum.
- Í hverju ætti ég að vera í dag? Leysum það t.d. með því að athuga hvernig veðrið er úti?
- Á ég að fara í bíó í kvöld? Leysum það t.d. með því að kíkja í veskið, hef ég efni á bíóferð?
2. Erfiðari ÁKVARÐANIR þar sem nauðsynlegt getur verið að skoða afleiðingar mismunandi ÁKVARÐANA, setja fram kosti og galla hvers möguleika eða gera einfaldar sviðsmyndir um útkomuna. Sviðsmynd er einskonar saga sem við segjum um hvað gæti gerst ef við tökum ákveðna ÁKVÖRÐUN fram yfir aðra. T.d. Á ég að fara í sumarbústað með ömmu og afa eða vera í bænum og reyna að hitta vini? Hvor sviðsmyndin er líklegri til að gefa mér og mínum nánustu meira?
3. Flóknar ÁKVARÐANIR þarf að skoða frá mismunandi sjónarhornum, safna gögnum og skoða hvaða þýðingu hver niðurstaða hefur.
T.d. gætum við viljað ákveða í hvaða framhaldsskóla við viljum fara? Þá þarf að hugsa um hvað skiptir okkur máli í námi?
staðsetning
félagslíf
hver er besta brautin sem hentar minni framtíðarsýn?
Hér er VERKFÆRI TIL ÁKVÖRÐUNAR með leiðbeiningum til að hjálpa þér eða hópnum þínum að taka stóra ákvörðun.
Siðfræðileg mál
Upp geta komið SIÐFRÆÐILEG MÁL við ákvarðanatöku. Ákvörðun getur haft jákvæð áhrif á einn aðila en neikvæð áhrif á annan. Hvernig leysum við það? Við viljum að sem flestir hagnist af ákvörðuninni og að enginn tapi á henni. Oft er talað um win-win í þessu samhengi þar sem báðir/allir njóta góðs af. Við viljum það frekar en win-lose eða hvað þá lose-lose þar sem annar eða allir tapa á ákvörðuninni.
Hér eru spurningar sem gott er að spyrja hópinn þegar ákvörðun er tekin:
- Hefur ákvörðunin neikvæð áhrif á einhvern innan hópsins?
- Hefur ákvörðunin neikvæð áhrif á einhvern utan hópsins?
- Ef svo er, er það í lagi?
- Getum við fundið milliveg þannig að allir njóti góðs af ákvörðuninni?