Hvernig vinnum við sem hópur?

HÓPVINNA er gagnleg til þess að skipta á milli sín verkum, vinna verkin hraðar og betur. HÓPVINNA er manninum eðlislæg en öll viljum við hafa samskipti við aðra. Ýmislegt er hægt að læra af HÓPVINNU; setja sig í spor annarra, sýna samúð og skilning og hvenær það er rétt að hafa sig frammi eða halda sig til hlés.


Hópefli

Það að þétta hópinn getur átt við á hvaða stigi hópvinnunar sem er en á þó sérstaklega við í upphafi þegar hópurinn er að fóta sig áfram um hvernig best sé að vinna saman. HÓPEFLI hristir saman hópinn og fólk kynnist nánar. Og fyrir utan það að koma blóðinu á hreyfingu og virkja hláturtaugarnar þá gerir það hópinn virkari og samskiptin styrkjast þegar glímt er við óvenjuleg og áhugaverð viðfangsefni. HÓPEFLI getur verið í formi keppni eða leikja, en oft getur verið nóg að skella sér í sund saman eða baka pizzu.

Þessi leikur hentar vel þegar stór hópur er að kynnast:

  • Hópurinn byrjar á því að raða sér upp í stafrófsröð eftir nafni en má ekki tala saman en má nota látbragð.

  • Næst raðar hópurinn sér upp í aldursröð eftir því sem þau halda að sé réttast - án þess að ræða saman.

  • Þegar komið er að næsta skrefi má tjá sig með látbragði og hópurinn raðar sér upp eftir aldri.

Að virkja styrkleika og skipa í hlutverk

Það góða við að vinna í hóp er að þar koma oft ólíkir einstaklingar saman sem hver hefur sína STYRKLEIKA. Það er mikilvægt fyrir hópinn að kynnast vel og átta sig á hverjir eru góðir í hverju og hver vill vinna hvað, en einnig í hverju hver mætti bæta sig.
HÉR má nálgast verkfæri til þess að ná yfirsýn yfir STYRKLEIKA og ÁHUGASVIÐ þeirra sem vinna verkefnið. Út frá þessu er svo hægt að skipta niður hlutverkum sjá nánar í kafla um skipulag.


Opinská umræða

Mjög mikilvægt er að í hópastarfi fari fram OPINSKÁ UMRÆÐA. Það þarf að gefa öllum færi á því að segja sína skoðun, hvort sem maður er sammála þeim eða ekki. Ef allir segja sína skoðun og finnst þeir vera virkir þátttakendur eru meiri líkur á að samvinna gangi vel.

Hópvinna getur líka tekið á þar sem ólíkir einstaklingar eru ekki alltaf sammála um það hvernig á að takast á við hlutina en með OPINNI UMRÆÐU má leysa og fyrst og fremst koma í veg fyrir ágreining.

Æfing: Takið fyrir markmið og lokaafurð verkefnisins og ræðið innan hópsins.

Hér eru nokkrar spurningar sem hægt er að nota til þess að fá alla til þess að segja sína skoðun og taka þátt.

  • Hvað finnst þér um þetta?

  • Er eitthvað sem þarf að bæta við/breyta/taka út?

  • Ert þú sammála þessu?

  • Getum við gert þetta öðruvísi?

  • Hvað finnst þér?