Ertu með góða hugmynd?
Þegar útfæra á verkefni þar sem margir taka þátt er gott að fara í hugmyndavinnu. Hugmyndavinna getur gert verkefnið fjölbreyttara og skemmtilegra. Mestu skiptir að allir innan hópsins séu virkir og tilbúnir til þess að láta hugann reika, koma með HUGMYNDIR úr öllum áttum og hvernig hægt sé að vinna HUGMYNDIRNAR frekar. En HUGMYNDIRNAR mega vera raunhæfar eða algjörlega út úr kortinu, allt má - ekkert er asnalegt.
Hugarflug
Margar leiðir eru til að koma sér saman um hugmyndir og aðferðir að þeim. Ein þeirra er brainstorming eða HUGARFLUG.
Tökum dæmi um verkefni sem gengur út á að skipuleggja ljóðaupplestur á bókasafninu. Verkefnið snýst um að allir innan bekkjarins velji sér ljóð og lesi fyrir gesti. Fyrir gesti verður kaffi og kakó á boðstólnum. Þetta er frekar þurrt og leiðinlegt verkefni og ekki miklar líkur á að unglingadeildinni finnist þetta spennandi.
Með HUGARFLUGI gæti niðurstaðan orðið mun skemmtilegri:
Litaþema - salur skreyttur - fatnaður - veitingar
Happdrættismiðar
Útfærsla ljóða má ekki vera hefðbundin: rapp/söngur/teknó/glærusýning/myndir o.s.frv.
Fá gesti til að vera þátttakendur - settir í hóp í hléinu og þurfa að semja ljóð
Búningar
Leynigestur
- Verðlaun fyrir asnalegasta atriðið
Sýn - vision
Nú er komin góð hugmynd og tími til þess að útfæra hana nánar. Það getur verið gagnlegt að teikna SÝN til þess að þróa hugmyndir en einnig til þess að sameinast um lokaútkomu. SÝN er handteiknuð mynd sem setur fram hugmyndina frá ýmsum sjónarhornum. Það sem getur komið fram er niðurstaða verkefnisins, til dæmis hlutur, viðburður, heimasíða eða verkefni og hugmyndir um notkun. Ef niðurstaðan er kistill sem smíðaður er í smíðakennslu getur SÝNIN verið mynd af hlutnum og dæmi um hvernig hann er notaður. Inn á SÝNINA gætu komið mismunandi notendur svo sem börn og fullorðnir og hvernig þeir nota hlutinn á ólíkan hátt.
Hér sést lokaafurð verkefnisins og hvernig ljóðakvöldið fer fram, bæði fyrir flytjendur og gesti.
6 hatta aðferðin
Í umræðum á fólk það til að festast í ákveðnum hlutverkum. Sumir reyna alltaf að sjá það jákvæða, aðrir reyna sífellt að gagnrýna á meðan enn aðrir eru uppteknir við að finna nýjar lausnir. 6HATTAR er leið til að fá alla til að horfa á hugmynd eða verkefni frá mismunandi sjónarhornum. Mikilvægt er að staðreyndir fái að standa en að ímyndunaraflið fái að njóta sín. 6HATTAR hjálpa til við að hugsa gagnrýnið og fá fram allt sem skiptir máli.