Hvernig skipuleggjum við verkefni?

Verkþættir, verk og vörður

Áður en vinna hefst við verkefni þarf að huga að skipulagningu og átta sig á því sem þarf að gera og einnig hversu langan tíma það tekur. Verkefnum má skipta niður eftir VERKÞÁTTUM og undir hverjum VERKÞÆTTI eru VERK sem þarf að vinna. Þegar öllum VERKUM hvers VERKÞÁTTAR er lokið höfum við komist að VÖRÐU. Tökum dæmi:

Nemendum er gefið verkefni í skólanum þar sem þau eiga að gera myndband um merkilegan atburð í Íslandssögunni, kynna það og sýna öðrum nemendum. Hópurinn velur að gera myndband um það þegar íslenska handboltalandsliðið fékk silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Skipulagið fyrir þetta verkefni gæti litið svona út:

filma.jpg
  • Verkþáttur 1 : Finna efni

    • VERK: Leita á netinu, taka upp leikið efni, taka upp viðtöl

  • Verkþáttur 2 : Vinna efni

    • VERK: Klippa myndband, velja tónlist, tengja tónlist við myndband

  • Verkþáttur 3 : Kynning

    • VERK: Útbúa kynningu, flytja kynningu og sýna myndband

VÖRÐUR þessa verkefnis eru:

  • Varða 1 : Efni fundið

  • Varða 2 : Vinna við efni lokið

  • Varða 3 : Kynning búin
 
 

Mikilvægt er að hafa í huga að öll verkefni hafa upphaf og endi og taka mislangan tíma. Þegar unnið er að því að skipta verkefni upp í VERKÞÆTTI er gerð áætlum um hvað VERKIN taki langan tíma. Hér er verkfæri til þess að vinna VERKÞÆTTI, VERK og VÖRÐUR.


Verkaskipting - Hlutverkaflétta

Þegar búið er að skipta verkefninu í verkþætti og átta sig á hvað þarf að gera kemur að því að gera VERKASKIPTINGU, hver á að gera hvað? Til þess að hafa góða yfirsýn yfir hver VERKASKIPTINGIN er má gera HLUTVERKAFLÉTTU, en hún setur fram á einfaldan máta hver er ábyrgur fyrir hverju. Hér er verkfæri til þess að gera HLUTVERKAFLÉTTU. Þegar hingað er komið getur verið gott að skoða verkfæri úr hópavinnu kaflanum um styrkleika hópmeðlima. Hægt er að skipta upp verkum eftir styrkleikum og áhugasviði hópmeðlima eða að færa sig út fyrir þægindarammann og takast á við verkefni sem maður er ekki vanur að framkvæma.


Staða og framgangur

Eftir að vinna við verkefnið er hafin er gott að fara yfir STÖÐU þess reglulega og bera saman við þá áætlun sem var gerð í byrjun. Hér er verkfæri sem hægt er að nota til þess að fylgjast með STÖÐU og FRAMGANGI verkefnisins og þannig sjá hvort að eitthvað vanti upp á eða hvort verið sé að vinna allt sem þarf.

Til þess að ræða FRAMGANG hvers og eins svarar hver og einn  þessum 3 spurningum í byrjun vinnufundar:

Hvað er ég búin/-nn að gera?

Hvað þarf ég að gera næst?

Er eitthvað sem gerir mér erfitt fyrir?