Hvar á að byrja?

Við tökumst öll á við verkefni á hverjum degi, hvort sem er í skólanum, í vinnu eða í frítíma. Verkefni er röð verkþátta sem hefur skilgreindan tilgang og markmið og fyrirfram ákveðinn tímaramma. En hvernig er best að byrja á verkefni?

Í upphafi er mikilvægt að átta sig á tilgangi verkefnisins. Tilgangur er oft settur fram í einni setningu sem svarar spurningunni: Hvers vegna gerum við verkefnið?

UMFANG

Þegar hefja skal verkefnavinnu þarf að áætla UMFANG þess. UMFANG verkefnis segir til um allt sem tilheyrir verkefninu: helstu markmið þess, tímamörk, hagsmunaaðila og afurð. Ef UMFANG verkefnis er ekki skýrt er hætta á að verkefnið fari úr böndunum og verði of stót. Þegar UMFANG verkefnis er skilgreint er líka mikilvægt að skilgreina hvað fellur utan þess.

Markmið

Hverju viljum við ná fram? Skrifum niður röð markmiða. Þau þurfa að vera mælanleg svo að hægt sé að svara þeirri spurningu í lokinn fyrir hvert markmið hvort þau náðust eða ekki. Markmið hjálpa fólki að halda sér við efnið og missa ekki sjónar af því sem skiptir máli.

Tímamörk

Hvenær byrjar verkefnið og hvenær endar það? Í upphafi gerum við áætlun um tímamörk verkefnis.

Hagsmunaaðilar

Hverjir eru hagsmunaaðilar verkefnis? Skrifum niður alla sem koma að verkefninu og alla sem verkefnið hefur áhrif á. Í verkefnavinnu er mikilvægt að gera sér grein fyrir öllum hagsmunaaðilum og halda góðu sambandi við þá.

Afurð

Hvað fáum við út úr verkefninu? Gerum áætlun um það hverju við skilum af okkur.


HÉR má nálgast verkfæri til að skilgreina UMFANG verkefnis. Þegar þetta hefur verið gert erum við tilbúin að byrja. 


Dæmi:

Heimaverkefni í heimilsfræði með eftirfarandi lýsingu:

„Verkefnið er að nemendur eiga að útbúa máltíð fyrir heimilisfólk sitt. Nemendur þurfa sjálfir að finna uppskrift á netinu, sjá um að matreiða matinn frá grunni og að ganga frá eftir sig. Nemendur eiga að skila inn upplýsingum um hvernig þeir fundu uppskriftina, hvernig gekk að útbúa matinn og svo að láta forráðamann skrifa uppá að nemandi hafi framkvæmt verkefnið sjálfur. Verkefninu á að skila eftir viku.“.

Tilgangur: Að útbúa mat fyrir heimilisfólkið mitt

UMFANG:

Markmið

  • Að útbúa mat sem allir í fjölskyldunni geta borðað

  • Að maturinn smakkist vel.

  • Að fá góða einkunn fyrir verkefnið hjá Helgu heimilisfræðikennara

Hagsmunaaðilar - Hverjir eru hagsmunaaðilar?

  • Heimilisfólkið

  • Helga heimilisfræðikennari

Tímamörk - Hver eru tímamörkin?

  • 24. apríl til 1. maí

Afurð - Hver er afurðin?

  • Máltíð sem allir geta borðað

  • Skilablað til kennara

  • Ánægðir heimilismenn

  • Verkefniseinkunn í heimilisfræði